Þú ert gestur númer  

Gestabók

Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.

























     
Hugleiðingar Jónu Rúnu
Áhugavert fólk

Við fæðumst inn í þennan heim
með mismikla möguleika til athafna og árangurs. Flest okkar eru bæði andlega og líkamlega rétt byggð.
Svo er hópur fólks sem á einhvern hátt er líkamlega skertur þannig að það fólk þarf í raun og veru að heyja miklu harðari lífsbaráttu en við sem óskert erum.

Heyrnaskerðing er eitt
af því sem sumt fólk þarf að kljást við. Ætli heyrnarskertur einstaklingur að lifa því lífi sem auðvelt er okkur hinum verður hann að læra að tala með miklu meiri fyrirhöfn en við hin, auk þess að læra fingramál verður hann að læra að lesa af vörum fólks. Lestrarnám er líka mörgu sinnum meira álagsatriði heyrnaskertum en heyrandi. Þannig er víst að sá heyrnaskerti þarf yfir höfuð að hafa miklu meira fyrir hlutunum sem okkur finnast sjálfgefnir, sem heyrum.

Óvíst er að öllum stundum
sé gætt nógrar tillitsemi við þó ekki væri nema þennan sérstaka hóp einstaklinga sem auk fötlunar sinnar verður kannski að standa í stríði við erfitt kerfi. Fólk veltir sjaldan fyrir sér raunverulegum dugnaði þessa minnihlutahóps þjóðfélagsins sem líka á sinn rétt og ætti að njóta miklu meiri skilnings og virðingar okkar sem laus erum við þær augljósu hömlur sem þessu fólki eru settar. Samt er það ljóst að því flestu tekst með óendanlegum dugnaði og hugrekki að koma ár sinni vel fyrir borð.

Eins er með sjónskerta og hreyfihamlaða,
flest er þetta fólk sem hefur óskert andlegt atgervi en líkamlegar hömlur, sem má auðveldlega styðja það til að yfirstíga ef samferðarfólk þess einblíndi ekki á fötlunina sem slíka heldur hvernig í raun og veru væri hægt að auðvelda þessu dugmikla fólki lífið. Fólki sem með tilvist sinni og árangri í verkum sem við hin varla tökum eftir að krefjast oft margfalts auka álags, því að þau eru einföld óskertu fólki. Fólki sem er augljósar fyrirmyndir góðra verka og athafna

Börn sem á einhvern máta eru skert
verða oft fyrir aðkasti leikfélaga sem ekki gera sér grein fyrir álaginum sem hvílir á þeim fyrir og auka jafnvel vanda þeirra, að því að við fullorðna fólkið upplýsum ekki alltaf börnin sem eru heilbrigð um mikilvægi umburðarlyndis og skilnings á höftum hinna skertu. Mörg skert börn hafa fyllst örvæntingu og sjálfsfyrirlitningu vegna þess að þeim hefur í leik við heilbrigð börn verið hafnað.

Það eru mikil forréttindi að fæðast óskertur,
því megum við aldrei gleyma. Auk þess er miklu minni fyrirhöfn að nálgast sjálfsagða hluti fyrir okkur sem þannig erum fædd í þennan undarlega heim, þar sem fólki er mismikið gefið af heilbrigði strax í vöggugjöf. Höfum líka alvarlega í huga að þeir sem líkamlega eru skertir finna oft sárar fyrir sinni fötlun en þeir sem hugfatlaðir eru, þó að auðvitað séu undantekningar þar sem annars staðar.

Við fullorðna fólkið
ættum að ræða við börnin okkar um þennan áhugaverða og dugmikla hóp fólks á jafnréttisgrundvelli svo að börnunum finnist sjálfsagt að hafa þau með sér í sem flestum leikjum sínum. Það er öruggt mál að af þessum hugrökku einstaklingum má mikið læra. Verum verðugir félagar þeirra skertu ævintýramanna- og kvenna sem neita að láta meðfæddar hömlur sínar minnka líkur á jöfnum og áhugaverðum árangri í þjóðfélaginu. Við erum jú sífellt að minna á hvað hlutur lítilmagnans skiptir miklu máli. Stöndum við orð okkar.

Það er líka rétt að benda á
þá einföldu staðreynd að foreldrar barna sem á einhvern hátt eru skert þurfa oft á tíðum að berjast ótrúlega harðri baráttu fyrir rétt barna sinna. Það eru t.d. oft göt í kerfinu sem geta hreinlega unnið á móti góðum vilja þeirra. Auk þess verða foreldrarnir líka að þerra tregatár barna sinna þegar leikfélagarnir hafna þeim, jafnvel á þeirri forsendu að þau séu fyrirstaða í leikjum af því að þau eru kannski örlítið svifaseinni ern börnin sem óskert eru.

Framkoma sem særir
og stuðlar að röngu sjálfsmati þess sem á við fötlun að stríða er ósæmileg og varhugaverð. Ef við sem eldri erum gerum okkur grein fyrir því, að lífið er það dýrmætasta sem hver einstaklingur á, myndum við örugglega stuðla betur að því að sem flestir fengju að vera lausir við vanmat annarra á sér.

Ég vil að lokum segja þetta:
lítilmagni er að mínu mati sá sem neitar að lifa því lífi sem Guð hefur gefið honum, þrátt fyrir augljóst heilbrigði, en ekki sá sem hefur lært að yfirstíga fötlun sína með æðruleysi og trú og þannig orðið nýtasti þjóðfélagsþegn þrátt fyrir hömlur. Eða eins og snjalli sálfræðingurinn sagði:
”Áhugi okkar á öðru fólki ætti alltaf að miðast við manngildi viðkomandi en ekki ytri mann hans.

Skrifað af: Jónu Rúnu Kvaran


Póstur til Jónu Rúnu

..