Þú ert gestur númer  

Gestabók

Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.

























     
Grín og gaman. Höfundur: Jóna Rúna

Hallgerður Hádal og bólukremið


Pabbi er eitt stress þessa dagana,
vegna þess að hann er svo rosalega spéhræddur. Málið er að hann er með meiriháttar bólu framan á nefinu, sem sést auðveldlega í myrkri. Hann er búin að fara til læknis og allt, en hnappurinn bara vex og vex. Hann hefur ekki mætt í vinnuna í tvær vikur og allir eru að verða brjálaðir hér heima. Mamma fær móðursýkiskast tvisvar til þrisvar á dag.

Ég sá greinilega að hann hefur stolist í bólukremið mitt.

Við skulum bara athuga það að ég hef ekkert efni á að splæsa tvö þúsund krónum í krem á næstunni. Hann þrætir samt fyrir það sá gamli, en ég sá svo greinilega hvað hann varð flóttalegur í framan, þegar hann áttaði sig á að ég er sko með eigur mínar á hreinu. Ef hann verður heima einn dag í viðbót verð ég að flytja út í garð, ég meina það. Ég er sagði honum að ég gæti auðveldlega leyst þetta mál fyrir hann og gaf honum hvítlaukskrem sem ég hafði búið til úr nokkrum belgjum.

Karlinn bar þetta á sig
og maður tók ekki lengur feil á honum og appelsínu. Hvað haldið þið að hafi svo gerst í gærkvöld? Jú, gamla gengið fór í bíó og myndin var stoppuð í miðjum klíðum og gömul kona sem sat við hliðina á þeim var borin út í yfirliði. Þegar þau komu heim sagði pabbi að ég væri fáviti að nota hvítlaukinn í þessum tilgangi. Ég sagði honum að það hefði aldrei verið talað um að hann settist hjá óspjallaðri gamalli óhemju, þó hann færi í bíó, auk þess sem ég sæi ekki betur en sveppurinn á nefinu á honum væri horfinn. Gamli forngripurinn hefði bara fengið slag og sennilega af því að myndin hefði verið of djörf fyrir svona slitið lið.

Mamma sagði undirförul af sinni alkunnu speki:
" Bólan hefur bara horfið við öll lætin og ég man ekki til þess að hafa séð neitt blátt, þó ég hafi litið nokkrum sinnum undan." Pabbi gamli var nú alls ekki á því sem mútta sagði um túttuna og sagði:" Ég reif hana sjálfur af í öllu patinu og stakk henni í vasann." Mér finnst ansi ósanngjarnt að gamla settið sé að eigna sér ráðin manns.

Laukurinn virkar.
Ég ráðlagði t.d. Jóu vinkonu að nota hann á frunsu og allt gekk upp hjá henni með það sama. Ég veit ekki betur en Kalli kærastinn hennar hafi horfið sporlaust úr meiriháttar kelirí og ekki sést síðan. Jóa var búin að reyna allt til að losna við gaurinn, en viti menn, hvítlaukurinn sá um að aftengja boltann. Hún er með frunsuna ennþá og hún hefur stækkað. En við skulum bara muna það, að Jóa var orðin svo þreytt á Kalla, að það er ekkert skrýtið þó eitthvað stækki á henni. Vonandi verð ég uppgötvuð fljótlega. Ég er meiriháttar, það er á tæru.

Skrifað af: Jónu Rúnu Kvaran


Póstur til Jónu Rúnu

..